10.12.2013 | 18:17
13.desember er Lusiu minnst
Það gerðist um það bil árið 304 eftir Krist í þorpinu Syrakusa á Sikiley sem er eins og þið vitið stærsta eyjan í Miðjarðarhafinu og stærsta sýsla Ítalíu .
Mamma Lúsiu sem hafði eldað sér fyllta önd daginn áður en atburður þessarar frásagnar hefst.
Hún hafði gleymt að setja sveskjur í fyllinguna.
Nú fær hún miklar innantökur og hjartverk. Þetta mun hafa stafað af því að sveskjurnar vantaði í fyllinguna.
Það er ekki að orðlengja það, en dóttir hennar hún Lúsia varð skelkjuð mjög og taldi að móðir sín myndi deyja þá um daginn. Hún leitaði því til gamallar konu sem hét Agata, og var talin vita meira en flestir aðrir í þorpinu um innantökur.
Agata bruggar nú mjöð, sem við nú á dögum köllum verk og vindeyðandi. Móðir Lúsiu fær nú flösku með þessum miði og segir Agata að hún eigi að fá sér sopa á hálftíma fresti. Þetta gerir svo móðir Lúsiu samviskusamlega. Viti menn eftir fjórar inntökur, stendur sú dauðvona upp og segist þurfa að bregða sér frá.
Heyrast nú miklir skruðningar frá prívati því, sem nú til dags kallað salerni, en í þá daga kamar. Þessu virðist ekki ætla að linna, og hefur Lúsia miklar áhyggjur af þessum hljóðum. Það var þá sem Lusia snýr sér til himins og heitir því að tilbiðja guð og vera hrein mey til æviloka, ef móðir hennar deyi ekki.
Í þessum heitstrengingum skeður það að hljóðin frá kamrinum hljóðna. Lúsia læðist að kamrinum og hvíslar ertu lifandi móðir mín ?
Hurðin á kamrinum opnast og móðir Lúsiu gengur út og segir, mikið var þetta nú losandi sem hún Agata bruggaði fyrir mig, bætir svo við, ég verð að muna eftir sveskjunum næst þegar ég geri fyllingu.
Nú gerist það að Lúsia segir frá heiti sínu við almættið, um að hún ætli ekki að missa meydóminn, en Lúsia var trúlofuð strák úr því hverfi í Syrakusa sem við myndum kalla Vogana hér á Íslandi.
Þegar strákurinn úr Vogunum fréttir þetta segir hann við Lúsiu sína, heyrðu Lúsia hvaða vitleysa er þetta sem ég heyri, að þú sért hætt með mér og ætlir ekki að leyfa neinum að fara upp á þig.
Já minn kæri ég lofaði guði því, ef hún móðir mín myndi lifa.
Þetta líst mér ekkert á segir strákurinn úr Vogunum.
Lúsia sat við sinn keip, og ekki nóg með það heldur fór að deila heimanmundinum sem hún átti að fá þegar hún giftist strákum, meðal fátæklinga.
Nú var piltinum nóg boðið Lúsia ekki lengur hans og heimanmundurinn gefin ölmusufólki sem í dag eru kallaðir atvinnuleysingjar.
Hann ákvað að hefna sín á Lúsiu og kærði hana til Keisarans í Róm sem þá var Constantin fyrsti fyrir að vera kristin.
Þegar Lúsia fékk stefnuna frá fógetanum, og sá fyrir hvað hún væri ákærð, þá stakk hún úr sér bæði augun og sendi kærastanum þau á undirskál.
Venjulega voru kristnir settir í Coloseum hringleikahúsið í Róm, og ljón og önnur óargadýr látin sjá um aftökurnar, til mikillar gleði og ánægju fyrir áhorfendur, sem yfirleitt voru mjög margir.
En fógetanum í Syrakusa þótti réttara að refsa Lúsiu með ævilangri þrælkun, þar sem hún var augnalaus og líklega ekkert varið í að setja hana fyrir óargadýr.
Þegar menn fógetans ætluðu að ná í Lúsiu, til að flytja hana í þrælabúðirnar, þá þá bregður svo við að þeir geta ekki hreyft hana.
Þeir ráða nú ráðum sínum um stund. Þá segir einn hermaðurinn, hvernig væri að brenna hana ? Þetta þótti mönnum fógetans heillaráð. Þeir bera nú eld að Lúsiu, en þá skeður það að eldurinn víkur frá henni . Þeir reyna nú ýmsar leiðir til að kveikja í Lúsiu en alltaf víkur eldurinn frá henni.
Það er að koma kvöld og samkvæmt vinnulöggjöf keisarans í Róm mátti ekki vinna eftir klukkan fimm.
Öll aukavinna hafði verið bönnuð árið 303 eftir Krist, svo nú voru hermenn fógetans að komast í mestu vandræði,
Hvað skyldi til til bragðs taka ? Þar sem klukkuna vantaði korter í fimm varð að hafa hraðann á.
Það var þá sem einn undirforingi í flokki fógetans dró sverð sitt úr beltinu og stakk því í háls Lúsiu, það varð hennar bani.
Lúsia þessi var svo tekin í dýrðlygatölu af páfanum í Róm löngu seinna.
Á Grand Kanarí heitir eitt þorpið meira að segja Santa Lusia, svo sjá má að þessi saga er ekkert bull sem ég hef sett saman.
Lúsiu er minnst 13.desember, þar sem það var talinn stysti dagur ársins eftir Júlianska tímatalinu, sem Júlíus Cesar lét reikna fyrir sig um 46 fyrir Krist.
Eftir Gregoríska tímatalinu, sem Gregory 13 páfi innleiddi 1582 og við notumst við er stysti dagur ársins 22 desember.
Á Lúsiudaginn 13 desember er einhver falleg stúlka klædd í hvítan kirtil til marks um hreinleika hennar, Gjarnan er settur rauður lindi um hana miðja sem lafir niður á tær. Það táknar blóðið sem rann úr hálsi hennar á dauðastundinni.
Kertin sem sett eru í krans og síðan á höfuð Lúsíunnar er til að minnast þess að eldur vann ekki á henni.
Lúsíur nútímans fá þó að halda augunum, og þurfa ekki að lofa neinu um meydóm sinn.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.