15.2.2008 | 10:43
Plús eða Mínusferðir ?
Þá var loksins runninn upp stóri dagurinn, 15. Janúar dagurinn sem við vorum að fara til Kanarí. Á pappírnum frá Plúsferðum stóð, brottför kl.16:40 FUA 2684 koma til Kanarí kl. 22:10.
Við frúin og ég mætt stundvíslega tveimur tímum fyrir brottför. Okkur var sagt að það þýddi ekkert að koma fyrr, því innskráning hæfist ekki fyrr en tveimur tímum fyrir brottför.
Við bíðum með vegabréfin og pappírinn frá ferðaskriftofunni fyrir framan afgreiðsluborðið með bros á vör full eftirvæntnigar. Gerið svo vel segir stúlkan bak við borðið. Hún tekur vegabréfin og pappírinn og segir það verður víst einhver seinkun á fluginu til Kanarí, held jafvel að vélin muni millilenda á Írlandi.
Nú hvað með það við erum komin og það er svo sem slétt sama hvort við bíðum hér eða einhversstaðar út í bæ.
Stúlkan réttir okkur vegabréfin og pappírinn frá ferðaskrifstofunni ásamt brottfaraspjöldunum, sæti 11A og B segir hún, og góða ferð. Takk fyrir segjum við.
Þá er það nú vopnaleitin. Týnið spjarirnar af ykkur allt nema undir og fyrstu yfirföt. Ef þið eruð með úr eða penna setjið það þá í bakka ásamt jakka, frakka og peysu. Sömu leiðis veski og ef þið eruð með eitthvað í vösunum þá á það að fara sömuleiðis í bakka. Úr skóm og taka af sér beltið, allt heila klabbið í bakka. Fartölvuna verður þú að taka úr töskunni og setja í sér bakka takk, því Alla er algóður og vill enga flugræningja.
Fftir þessa vopnaleit sem bar að vísu engan árangur þar sem við vorum hvorki vopnuð né með vatn meðferðis þá tók við að tína upp úr bökkunum og klæða sig aftur í, buxurnar voru komnar ansi neðarlega, en það var svo sem enginn að skoða það, allir höfðu nóg með sig.
Déskoti er nú gaman að vera kominn í fríhöfnina, hér er sko hægt að kaupa hvað sem er fyrir lítinn pening sagði ég við frúna, þetta er sko taxfrí. Eftir smá rannsók á vörunum kvað frúin upp úrskurð. Þetta er miklu dírara en út úr búð. Þá fór það.
Nú tók við bið sem áætluð var um tveir tímar, en varð raunar rúmir fjórir tímar. Um klukkan 17 var tilkynnt að félagið af elsku sinni, náð og miskun ætlaði að splæsa á okkur brauðsneið og kók eða einhverjum öðrum drykk nema bara ekki sterkum. Þetta var kærkomið enda ekkert fengið frá hádegi þegar ferðin hófst suður á völl.
Kl. 20:30 brunaði svo FUA-vélin af stað og í loftið. Við hugsuðum gott til glóðarinnar og fá okkur samlokur og kannski rauðvín með, við á leið til Kanarí því við hæfi að fá sér eina rauða. Þegar á loft var komið tilkynntu flugfreyjurnar að áhöfnin væri svo þreytt og flugið til Írlands svo stutt að ekki væri hægt að afgreiða nema þá kannski vatn, ef einhver væri aðframkomin af þorsta. Mér var hugsað til flugmannanna framí ef þreitan væri að pína áhöfnina, skyldu þeir þá getað vakað til að stjórna apparatinu alla leið. Erindið til Írlands var að skipta um áhöfn og bæta eldsneyti á vélina. Eftir um þriggja tíma flug til Dublin. Lenti vélin heilu og höldnu. Dælt á vélina og ný áhöfn bættist í vélina.
Eftir flugtak frá Írlandi var tilkynnt á útlensku að nú ætti að selja samlokur, pissur og eitthvað að drekka, því næst yrði sko lent á Kanarí. Einum og hálfum tíma síðar var kaffivagninn komin til okkar í 11. röð. Samloka og rauðvín takk. Hvort hann komst nokkurntíma aftast veit ég ekki en það finnst mér ólíklegt þar sem flugið var ekki nema um fjórir tímar.
Strákarnir framí rötuðu á eyjuna fyrirheitnu, og ekkert út á það að setja.
Þegar við svo komum á gististað var klukkan orðin 05:30 daginn eftir að við lögðum á stað. ( Þeir sem höfðu þá fyrirhyggju að kaupa rútuferð komu um kl. 08:00 á síma gististaði, allavega þeir sem síðast fóru úr rútunni. )Þar var enginn í gestamótökunni, en bent á næsta hús þar væri hægt að nálgast lykilinn að íbúðinni. Það gékk eftir, sá sem lét okkur hafa lykilinn hafði að vísu orð á að hann hefði búist við okkur í gærkvöldi. Ég sagði honum að vélin hefði villst og flugmennirnir átt í erfiðleikum með að finna eyjuna.
Einhverjum dögum síðar þegar við vorum búin að jafa okkur á þessu næturferðalagi, fórum við á það sem kallað er fararstjóra-fundur. Þar var ansi hress strákur sem tók að sér fyrir hönd ferðaskrifstofanna, Úrval Útsýn, Sumarferða, Plúsferða, Mínusferða og annarra ferða hvað sem þær nú heita að hneigslast á því hvernig ferðin hefði gengið fyrir sig. En aðal atriðið var samt að selja fólkinu einhverjar ferðir meðan á dvöl þeirra stæði. Samskonar ferð viku seinna var víst skrautleg eins og okkar, þá var millilent á Majorka til að endurnýja í áhöfn og taka eldsneyti. Þeir ferðalanar komu á sína gististaði um sex leytið að morgni.
Við höfum verið að rifja upp ýmis ferðalög, og munum það rétt að ef stóð á farseðli að ferðin væri farin frá einum stað til annars, þá væri ekki tekinn krókur til einhvers annars staðar eða lands, til að útrétta eitthvað á vegum flugfélagsins.
Nú hvað um það, dvölin var hin ánægjulegasta þarna á eyjunni í tæpar fjórar vikur. Þegar leið að brottför nánar tiltekið daginn fyrir, fórum við svo á annan fararstjóra-fund til að athuga hvort ferðaáætlunin sem við höfðum hefði nokkuð breyst. Það á að vera í möppunni hjá ykkur var fyrsta svar. Við sögðum að ekkert væri í möppunni nema gamlar upplýsingar um út að borða hjá Klöru, og um einhverjar ferðir sem laungu var búið að fara. Þá leit kven-Auðurinn í möppuna sína og sagði, þið eruð ekki skráð í rútuna þess vegna erum við ekkert að setja nýjar upplýsingar í möppuna hjá ykkur. Þið eruð á ykkar eigin vegum . Nú en við keyptum ferðina hjá ykkur og þar sem allt gekk nú hálfpartinn á afturfótunum hingað, vildum við athuga hvort eitthvað hafi breyst með heimferðina. Sama svar, þið eruð ekki skráð í rútuna þess vegna eru engar upplýsingar settar í möppuna hjá ykkur. Merkilegt að rútan skuli ákveða hverjir fá að vita um brottför.
Það er ekki að orðlengja það en ferðin heim gékk áfallalaust fyrir sig og var lent í Keflavík á áætluðum tíma. Meira að segja var tilkynnt á íslensku að hægt væri að fá hressingu keypta á leiðinni heim.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.