7.9.2008 | 11:37
Evru-verkfræðingurinn
Hvernig verður þetta með evruna Halldór minn? Hvað áttu við ? Ég meina þegar skift verður á handónýtri krónunni og þessum dásamlegu evrum, á hvaða gengi verður það eiginlega ? Einn á móti 500 kannske eða hvað ? Núna er það einn á móti 125.
Það verður fróðlegt að sjá írafárið ef ákveðið verður að henda krónunni út í hafsauga.
Þá verður handagangur í öskjunni, að koma öllum krónunum sem ekki eru til þ.e.a.s ekki til á pappírunum sem skattmann hefur til að lesa á kvöldin. Það skeði á Spáni þegar Þjóðverjarnir áttuðu sig á að sumir áttu fleiri mörk er skattmann hafði hugmynd um. Þá ruku þeir til og stofnuðu byggingarfélög á Spáni og fleiri löndum og dælu þangað mörkum við mikinn fögnuð Spánverja og þeirra sem voru svo heppnir að verða fyrir vali þeirra þýsku, þvílíkar byggingarframkvæmdir maður lifandi.
Heldur þú ekki Dóri minn að nú sé möguleiki á einu kvótakerfinu til ? Hugsum okkur að dýralæknirinn í Hafnarfirði og kallinn í Svartakastala ásamt einhverjum fleiri höfðingjum ákvæðu, að við Dóri minn og þessi svokallaði almenningur fái evruna á 500 kall stykkið, en útvaldir á segjum bara 100 kall stykkið. Hvað ertu að meina ? Nú að evru-kvótakallarnir fá evruna á 100 kall en við á 500 kall skilurðu sko.
Þú meinar, en hvernig á að skýra það ? Jú sjáðu til Dóri minn. Þeir segja bara að þetta sé svo mikið magn sem evru-kvótakarlarnir séu að kaupa að ekki sé nema sanngjarnt að þeir fái verulegan afslátt. Svo hafi þeir líka verið að hugsa um að kaupa þegar evran kostaði 100 kall svo það sé ekki nema sanngjarnt að selja þeim á því verði.
Þetta eru jú máttarstólpar viðskipta á Íslandi má svo fylgja með í skýringunum, enda sett hvert fyrirtækið á fætur öðru á hausinn á undanförnum árum.
Ég held að þú sért rugluð Magnea mín, ég meina það.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.