5.10.2008 | 10:28
Bjarnapistill Hahaharðarsonar
Það er mikil speki á blogginu þínu.
En fyrir venjulegt fólk þ.e. fíflin eins og forstjórinn sagði hér um árið lítur dæmið ef til vill út sisvona.
Efitr 40 ára strit og vesen hefur fíflinu tekist að aungla saman 4 millum, sem hann setti í bankann sinn. Hann treysti því að þar væri nurlið í öruggu skjóli þar til ellin kallaði á peninginn.
4 millur deilt með 80,00 kr það er það sem evran kostaði fyrir rúmu ári síðan = 50.000 evrur. Sem sagt fíflið átti jafngildi 50.000 evra. Núna lítur þetta nurl fíflsins svona út.
4 millur deilt með 155,80 = 25.634, að auki býr fíflið við 15 % verðbólgu sem allir vita hvernig kemur við budduna þegar skroppið er út í búð til að kaupa nammi og rúgbrauð, svo maður tali nú ekki um afborganir af lánum.
Ef við hefðum haft gæfu til fyrir svo sem 10 árum til að ganga í EB og taka upp evruna, þá ætti fíflið ennþá 50.000 evrur, verðbólgan væri svona 2-4 % þ.e. sama og í öðrum EB löndum.
Þá er þetta með sjálfstæði Íslands og allt það. Mér skilst að Ísland verði að setja í lög hjá sér nánast allt sem EB löndin setja sjálfum sér sem lög. Þó er einhver sveigjanleiki og aðlögun eftir efni laganna. Ef þú spyrð Dani hvort þeir hafi glatað sjálfstæði sínu, horfa þeir bara á þig og segja eftir drjúga stund. Ertu ekki í lagi maður, auðvitað ekki við höfum ekki glatað neinu sjálfstæði. Spyjir þú Svía að því sama segir hann það sama og Daninn en bætir við, verst að vera ekki laus við krónuna, en hún hverfur.
Amen.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sérdeilis skemmtileg færsla hjá þér, "gamli". Hún rifjaði upp fyrir mér þegar ég sem lítll strákur á Eskifirði rölti stoltur með sapíbaukinn minn í Landsbankann. Gjaldkerinn opnaði baukinn og taldi upp úr honum og horfði svo brosandi til mín og sagði; "Þú hefur sfnað þér 37.25 krónur vinur."
Eftir litla stund fékk hann mér grá bók í hendurnar sem hann sagði að væri bankabók og að hún geymdi peningana fyrir mig þangað til ég þyrfti að nota þá til að kaupa mér hús. Hann sagði mér líka að ég yrði að passa bókina mjög vel.
Ég passaði bókina svo vel að ég týndi henni og fann ekki aftur fyrr en eftir 32 ár þar sem hún leyndist innan um dót sem ég hafði tekið með mér að heiman. Ég brosti yfir fundinum og hugsaði til Einars í bankanum sem hafði sagt mér að passa bókina vel.
Nú lá leiðin aftur í Landsbankann. Í Reykjavík í þetta sinnið. Ég rétti gjaldkeranum hina löngu úreltu bankabók. Hún leit á mig eins og ég væri upprisinn og spurði hvað ég vildi gera með þessa bók. Ég sagðist ætla að taka innistæðuna út. Henni brá við eins og ég væri að biðja hana að gefa mér pening. Hún stóð upp og gekk til manns á næsta borði, sem ég þekkti af myndum sem handboltaþjálfara. Síðan kom hún aftur og hristi hausinn og sagði það er engin innistæða lengur inni á þessari bók. Síðan tók hún upp stóran gatara og eyðilagði fyrir mér bókina áður en hún ýtti til mín bókinni með fýlusvip.
Ég bað vesalings stúlkuna afsökunar á að hafa misnotað tíma hennar og hundskaðist út úr höfuðstöðvum Landsbankans sem Einar, frændi minn og vinur, hafði sagt mér að myndi passa peningana mína þar til ég þyrfti að nota þá til að byggja mér hús. Ég var sár.
Dunni, 5.10.2008 kl. 11:17
sæll ragnar - við spyrjum nú að leikslokum í þessu - krónan hefur tekið miklar dýfur og það hefur dollarinn líka gert. evran er að byrja. þessir danir og svíar sem þú talar um eru mjög dæmigerðir evrópukratar en ekki dæmigerðir fyrir sína þjóð - það sýna tölur í svíþjóð þar sem aldrei hefur tekist að svæla af mönnum krónuna. að kenna krónunni um er að eins og að kenna árinni um þegar ósjóir ganga...
Bjarni Harðarson, 6.10.2008 kl. 13:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.